Seta í óskiptu búi

Seta í óskiptu búi – sameiginleg börn

Hafi hinn látni verið í hjúskap við andlát getur eftirlifandi maki óskað eftir því að sitja í óskiptu búi.

Sambúðarmaki á ekki rétt til setu í óskiptu búi samkvæmt lögum og getur ekki fengið því framgengt með erfðaskrá. Slíkur réttur, seta í óskiptu búi er aðeins til þeirra sem hafa gengið í hjónaband. Hafi hjón aðeins átt sameiginleg börn er réttur hins langlífari maka skilyrðislaus. Sé skiptum dánarbús lokið með því að eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi, fer eftirlifandi maki einn með ráðstöfunarrétt yfir búinu.

Til að ganga frá setu í hinu óskipta búi þarf aðeins að fylla út eyðublað og skila til sýslumanns. Eyðublaðið má finna á neðangreindri vefslóð:

https://island.is/seta-i-oskiptu-bui

Sýslumaður staðfestir leyfið og gefur út leyfisbréf sem eftirlifandi maki getur svo sýnt hjá bankastofnunum og sýslumanni til að færa eignir sem voru skráðar á hinn skammlífari maka yfir á hinn langlífari.

Það athugast að maka er heimilt að kveða svo á um í erfðaskrá að hinn langlífari skuli ekki eiga rétt til setu í óskiptu búi, sbr. 7. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html og ber þá að synja um rétt til setu í óskiptu búi. Frumrit erfðaskrár verður að vera fyrir hendi.

Seta í óskiptu búi  – eitt barn eða fleiri ekki sameiginleg

Hafi hinn látni átt barn/börn sem ekki eru börn langlífari maka, er rétturinn til setu í óskiptu búi háður samþykki þeirra barna sem eru ekki sameiginleg.

Hjón geta þó komið í veg fyrir að leita þurfi samþykkis þess barns/þeirra barna sem ekki eru sameiginleg með því að gera erfðaskrá. Í erfðaskránni væri þá kveðið á um rétt langlífari makans til setu í óskiptu búi og þarf þá að framvísa frumriti erfðaskrárinnar þegar skammlífari maki er fallinn frá.

Sé erfðaskrá ekki til að dreifa á þó langlífari maki rétt til setu í óskiptu búi ef hann fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpbarna eða niðja sinna, ella þarf hann samþykki forsjárforeldris eða lögráðamanns barnanna.

Hvað merkir það að sitja í óskiptu búi?

Að sitja í óskiptu búi merkir að eignum og skuldum hins látna verður ekki skipt milli erfingja að svo stöddu. Eftirlifandi maki tekur við eignunum og  heldur áfram að halda utan um eignirnar, eins og staðan væri óbreytt. Sama gildir um skuldirnar. Hinn eftirlifandi maki hefur þannig einn ráðstöfunarrétt yfir öllum eignunum og geta eignir búsins hvort sem er rýrnað eða aukist á meðan seta í óskiptu búi varir. Hinn eftirlifandi maki ber þannig jafnframt ábyrgð á öllum skuldum dánarbúsins.

Börn hins látna eiga ekki tilkall til ákveðinna eigna og/eða fjármuna við andlát hins langlífari maka. Börnin eiga einungis tilkall til ákveðins hlutfalls, miðað við arfshlutdeild, af heildareignum dánarbúsins, þegar dánarbú hins skammlífara er gert upp við andlát hins langlífara maka.

Ef eftirlifandi maki situr í óskiptu búi, hvenær verður dánarbú hins skammlífara gert upp?

Hinn langlífari maki má sitja í óskiptu búi til dánardags og þá fyrst verður dánarbú hins skammlífara gert upp við andlát hins langlífara. Hinn langlífari maki verður að gæta þess þegar hann situr í óskiptu búi að fara eðlilega með fjármuni og eignir dánarbúsins, því skv. 17. gr. erfðalaga https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html er hægt að krefjast þess að búi verði skipt ef um óhæfilega fjárstjórn maka er að ræða. Dómafordæmi hafa sýnt að mikið þarf til að koma til að maki verði sviptur réttinum til að sitja í óskiptu búi.

Langlífari maka er ekki skylt að sitja í óskiptu búi til dánardags. Langlífara maka er ávallt heimilt að gera upp hið óskipta bú, hvort sem er við eitt barn eða fleiri. Algengt er að langlífari maki geri upp við börn hins skammlífari maka, en sitji áfram í óskiptu búi gagnvart sameiginlegum börnum sínum.

Heimild til setu í óskiptu búi fellur þó niður ef hinn langlífari maki ákveður að ganga í hjónaband að nýju og ber þá að gera upp arf eftir hinn skammlífari til allra barna hins skammlífara, þ.m.t. sameiginleg börn skammlífari og eftirlifandi maka.

Hafi langlífari maki setið í óskiptu búi með ófjárráða stjúpniðjum, getur þó stjúpniðji krafist skipta innan 3 mánaða frá því að hann öðlaðist fjárræði. Hafi hann ekki gert það innan þess tímaramma, þá getur hann þó gert það síðar með ársfyrirvara, sbr. 14. gr. erfðalaga https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html

Ef ákveðin eign var séreign hins skammlífara samkvæmt kaupmála, fer séreignin þá inn í hið óskipta bú?

Séreign fellur ekki undir hið óskipta bú nema sérstaklega hafi verið kveðið svo á um í kaupmálanum að við andlát þess sem á séreignina skuli fara með eignina sem hjúskapareign, sbr. 11. gr. erfðalaga https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html.

Um LOCAL lögmenn

LOCAL lögmenn er kraftmikil og metnaðarfull lögmannsstofa þar sem áhersla er lögð á samvinnu, bæði innan stofunnar og við viðskiptavini. Við leysum málið með þér og þínum til að létta á ykkar vangaveltum og ef til vill áhyggjum hvað varðar erfðamál og tengd réttindi.

LOCAL lögmenn bjóða þér að senda okkur tölvupóst á local@locallogmenn.is um það sem þér og þínum liggur á hjarta og við svörum þér eins fljótt og kostur er.

Hér getur þú farið yfir á vefsíðu LOCAL lögmanna og kynnt þér aðra þjónustu í boði.