Opinber skipti
Erfingjar geta krafist opinberra skipta á dánarbúi vilji þeir ekki gangast undir það að bera ábyrgð á öllum skuldbindingum búsins. Erfingjar geta líka farið þessa leið ef ágreiningur er á milli erfingja og líklegt þykir að erfitt verði að komast að samkomulagi um skipti búsins. Sýslumaður getur að auki krafist opinberra skipta hafi erfingjar ekki brugðist við áskorun sýslumanns um að hefjast handa við skipti. Hver erfingi fyrir sig á rétt á því að krefjast þess að opinber skipti fari fram og nægir að einn þeirra fari fram á það.
Til að krefjast opinberra skipta skal senda beiðni til þess héraðsdómstóls þar sem hinn látni átti síðast lögheimili. Beiðnin er svo tekin fyrir í sérstöku réttarhaldi og í framhaldinu kveðinn upp úrskurður og dánarbúinu skipaður sérstakur skiptastjóri. Skiptastjóri ber ábyrgð á að framkvæma skiptin og er kostnaður af störfum hans greiddur af eignum dánarbúsins. Skiptastjóri hefur skiptin á að boða erfingja á sinn fund.
Ef erfingjar lýsa því yfir að þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum búsins gefur skiptastjóri út innköllun sem birt er tvisvar sinnum í Lögbirtingablaði. Í innköllun er skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan 2 mánaða frá því að innköllunin birtist í fyrra skiptið.
Þegar skiptastjóri hefur lokið við að greiða allar kröfur á hendur dánarbúi eða tekið frá fjármuni til þess að mæta þeim getur hann lokið opinberum skiptum með úthlutun til erfingja. Sé ágreiningur fyrir hendi getur skiptastjóri þurft að vísa ágreiningi erfingja til héraðsdóms til úrlausnar.
Þá þarf að hafa í huga að hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús við opinber skipti og í ljós kemur eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir þess nægja ekki fyrir skuldum, þá verður úthlutað úr dánarbúinu upp í kröfur eins og um þrotabú væri að ræða.
Um LOCAL lögmenn
LOCAL lögmenn er kraftmikil og metnaðarfull lögmannsstofa þar sem áhersla er lögð á samvinnu, bæði innan stofunnar og við viðskiptavini. Við leysum málið með þér og þínum til að létta á ykkar vangaveltum og ef til vill áhyggjum hvað varðar erfðamál og tengd réttindi.
LOCAL lögmenn bjóða þér að senda okkur tölvupóst á local@locallogmenn.is um það sem þér og þínum liggur á hjarta og við svörum þér eins fljótt og kostur er.
Hér getur þú farið yfir á vefsíðu LOCAL lögmanna og kynnt þér aðra þjónustu í boði.