Einkaskipti
Með einkaskiptum er átt við það að börn, og eftir atvikum maki, og aðrir erfingjar samkvæmt erfðaskrá ef við á, óska eftir því við viðkomandi sýslumann að þeir ætli sjálfir að bera ábyrgð á skiptum á dánarbúinu og beri þannig ábyrgð á öllum skuldbindingum þess. Erfingjar bera þar með alla ábyrgð á skuldum hins látna, jafnt þeim skuldum sem kunnugt er um og þeim sem ekki eru þekktar við andlát viðkomandi.
Erfingjar sjá sjálfir um skiptingu eigna búsins og gera upp skuldir þess. Erfingjar geta því selt eignir þess, til dæmis fasteignir og tekið út af bankareikningum hins látna, enda miðast uppgjör erfðafjárskatts við stöðu eigna á dánardegi. Erfingjarnir eiga að gera þetta í sameiningu og vera sammála um hvaða eignir komi í hlut hvers og eins erfingja.
Hægt er að veita þriðja aðila umboð til að halda utan um skiptin fyrir hönd erfingjanna.
Til að ljúka skiptum formlega þarf að upplýsa um uppgjör á dánarbúinu með því að skila erfðafjárskýrslu til viðkomandi sýslumanns og greiða erfðafjárskatt. Ef erfingjar eru ekki allir að fá jafnt og sömu eignirnar, t.d. einn erfingi fær fasteign í sinni hlut en aðrir erfingjar meiri pening í staðinn, þarf að útbúa sérstaka skýrslu, svokallaða einkaskiptagerð, sem gerir grein fyrir þessu og þurfa allir erfingjar að undirrita hana. Ef eignir eru óverulegar, þá getur viðkomandi sýslumaður ákveðið að ekki sé nauðsynlegt að gera einkaskiptagerð ef nægar upplýsingar koma fram í erfðafjárskýrslu.
Ekkert eyðublað er fyrir einkaskiptagerð, en sýslumaður hefur gefið út staðlað form erfðafjárskýrslunnar, sjá hér https://www.skatturinn.is/media/rsk01/rsk_0112.is.pdf
Eftirlifandi maka ber ekki að greiða erfðafjárskatt. Sama gildir um sambúðarmaka sem tekur arf eftir hinn látna samkvæmt erfðaskrá. Eignir sem hafa verið á nafni hins látna er hægt að færa yfir á erfingja, þegar erfðafjárskattur hefur verið greiddur. Gjalddagi erfðafjárskatts er 10 dögum eftir að skýrslan hefur verið samþykkt, en eindagi er 30 dögum síðar, sbr. 14. gr. laga um erfðafjárskatt.
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2004014.html
Erfingjar fá eitt ár til að ljúka skiptum dánarbús frá því að leyfi til einkaskipta er gefið út.
Þessi leið er háð samþykki allra erfingja, ella verður að fara í opinber skipti.
Um LOCAL lögmenn
LOCAL lögmenn er kraftmikil og metnaðarfull lögmannsstofa þar sem áhersla er lögð á samvinnu, bæði innan stofunnar og við viðskiptavini. Við leysum málið með þér og þínum til að létta á ykkar vangaveltum og ef til vill áhyggjum hvað varðar erfðamál og tengd réttindi.
LOCAL lögmenn bjóða þér að senda okkur tölvupóst á local@locallogmenn.is um það sem þér og þínum liggur á hjarta og við svörum þér eins fljótt og kostur er.
Hér getur þú farið yfir á vefsíðu LOCAL lögmanna og kynnt þér aðra þjónustu í boði.