Erfðaskrár
Erfðaskrá er formbundinn skriflegur löggerningur um hinsta vilja einstaklings. Hver sem orðinn er 18 ára og telst andlega heill getur ráðstafað eignum sínum eftir andlát með erfðaskrá.
Hverju má ráðstafa með erfðaskrá?
Erfðaskrá getur tekið til allra eigna einstaklings ef hvorki er um eftirlifandi maka í hjúskap eða börn að ræða. Sé um maka eða börn að ræða er réttur einstaklings takmarkaður við rétt til að ráðstafa eignum sínum í erfðaskrá sem nemur 1/3 af heildareignunum.
Af hverju að gera erfðaskrá?
Ástæður fyrir því geta verið margar og leysa oft áhyggjur þess sem erfðaskrá gerir.
Sem dæmi má taka hjón, þar sem um er að ræða eitt barn eða fleiri sem ekki eru sameiginleg, geta hjón tryggt rétt sinn til setu í óskiptu búi með því að kveða á um það í erfðaskrá. Sama á við standi vilji einstaklings til að veita öðrum en líffræðilegu barni sínu og maka arfsrétt, svo sem stjúpbarni. Í sumum tilfellum vilja einstaklingar enn fremur kveða á um að tiltekin eign verði séreign barna sinna við arfstöku. Sem dæmi um slíkt má nefna að kveðið sé á um það í erfðaskrá að sumarbústaður fjölskyldunnar skuli vera séreign barnanna eftir andlát en færist ekki jafnframt á hendi tengdabarna. Enn fremur gæti verið kveðið á um að sumarbústaðurinn færi til ákveðins barns, en aðrar eignir til hinna barnanna.
Með gerð erfðaskrár er hægt að ná fram hinum hinsta vilja og um leið takmarka árekstra í kjölfar andláts. Erfðaskrá er nauðsynleg til þess og skal erfðaskráin uppfylla ákveðnar formkröfur. Einföld yfirlýsing hins látna í votta viðurvist nægir því ekki.
Strangar reglur gilda um hvernig á að standa að vottun erfðaskráa. Erfðaskrá kann að vera metin ógild ef ekki er farið eftir þeim reglum og því einstaklingi sem vill gera erfðaskrá ráðlagt að leita til sérfræðings við gerð hennar. Hægt er að breyta erfðaskrá eða auka við hana en við breytinguna verður að fylgja sömu reglum. Ef fleiri en ein erfðaskrá er til staðar og allar teljast gildar samkvæmt lögum er það sú yngsta sem fara skal eftir, ef þær stangast á.
Um LOCAL lögmenn
LOCAL lögmenn er kraftmikil og metnaðarfull lögmannsstofa þar sem áhersla er lögð á samvinnu, bæði innan stofunnar og við viðskiptavini. Við leysum málið með þér og þínum til að létta á ykkar vangaveltum og ef til vill áhyggjum hvað varðar erfðamál og tengd réttindi.
LOCAL lögmenn bjóða þér að senda okkur tölvupóst á local@locallogmenn.is um það sem þér og þínum liggur á hjarta og við svörum þér eins fljótt og kostur er.
Hér getur þú farið yfir á vefsíðu LOCAL lögmanna og kynnt þér aðra þjónustu í boði.