Dánarbússkipti

Við andlát tekur dánarbú við skyldum og réttindum hins látna. Dánarbú er sérstakur lögaðili og skal fara eftir ákveðnum reglum við uppgjör þess.

Við andlát er það skylda erfingja að ganga í að skipta eignum hins látna. Sýslumanni skal tilkynnt með formlegum hætti með hvaða hætti skiptin fara fram eigi síðar en innan fjögurra mánaða frá andláti.

Skipti dánarbús geta farið fram með eftirfarandi hætti:

  1. Eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi.
  2. Einkaskipti á dánarbúinu fara fram.
  3. Eignir duga aðeins fyrir útfararkostnaði og búið þar með lýst eignalaust.
  4. Opinber skipti á dánarbúinu fara fram.

Á meðan ráðstöfun á eignum dánarbús hefur ekki farið fram eru eignir hins látna í raun frystar. Aðeins sýslumaður fer með ráðstöfunarrétt yfir eignunum, þ.m.t. innstæðum á bankareikningum hins látna.

Fyrir andlát

Erfðaréttur

Skyldubundinn erfðarétt eiga niðjar (börn) hins látna og makar sem hafa gengið í hjónaband. Sé ekki um skyldubundinn erfðarétt að ræða kemur til frændsemi samkvæmt lögum, þ.e. foreldrar, systkini og systkini foreldra sem kallast lögerfingjar.

Ef engum skylduerfingjum, lögerfingjum eða erfðaskrá er til að dreifa þá renna eignir hins látna til ríkissjóðs.

Sambúðarmaki – fósturbörn – stjúpbörn

Ekki er um gagnkvæman rétt  sambúðarmaka til erfða. Hvort um sig getur þó kveðið á um slíka erfð í erfðaskrá og í slíku tilfelli þarf sambúðarmaki ekki að greiða erfðafjárskatt, sbr. 2. gr. laga um erfðafjárskatt  –  https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003090.html#G71M2

Stjúpbörn og fósturbörn njóta ekki erfðaréttar frá stjúpforeldri eða fósturforeldri. Hins vegar gæti stjúpforeldri eða fósturforeldri ráðstafað arfi til stjúpbarns eða fósturbarns með því að kveða á um slíkt í erfðaskrá

Erfðaskrár

Erfðaskrá er formbundinn skriflegur löggerningur um hinsta vilja einstaklings. Hver sem orðinn er 18 ára og telst andlega heill getur ráðstafað eignum sínum eftir andlát með erfðaskrá.

Hverju má ráðstafa með erfðaskrá?

Erfðaskrá getur tekið til allra eigna einstaklings ef hvorki er um eftirlifandi maka í hjúskap eða börn að ræða. Sé um maka eða börn að ræða er réttur einstaklings takmarkaður við rétt til að ráðstafa eignum sínum í erfðaskrá sem nemur 1/3  af heildareignunum.

Af hverju að gera erfðaskrá?

Ástæður fyrir því geta verið margar og leysa oft áhyggjur þess sem erfðaskrá gerir.

Sem dæmi má taka hjón, þar sem um er að ræða eitt barn eða fleiri sem ekki eru sameiginleg, geta hjón tryggt rétt sinn til setu í óskiptu búi með því að kveða á um það í erfðaskrá. Sama á við standi vilji einstaklings til að veita öðrum en líffræðilegu barni sínu og maka arfsrétt, svo sem stjúpbarni. Í sumum tilfellum vilja einstaklingar enn fremur kveða á um að tiltekin eign verði séreign barna sinna við arfstöku. Sem dæmi um slíkt má nefna að kveðið sé á um það í erfðaskrá að sumarbústaður fjölskyldunnar skuli vera séreign barnanna eftir andlát en færist ekki jafnframt á hendi tengdabarna. Enn fremur gæti verið kveðið á um að sumarbústaðurinn færi til ákveðins barns, en aðrar eignir til hinna barnanna.

Með gerð erfðaskrár er hægt að ná fram hinum hinsta vilja og um leið takmarka árekstra í kjölfar andláts. Erfðaskrá er nauðsynleg til þess og skal erfðaskráin uppfylla ákveðnar formkröfur. Einföld yfirlýsing hins látna í votta viðurvist nægir því ekki.

Strangar reglur gilda um hvernig á að standa að vottun erfðaskráa. Erfðaskrá kann að vera metin ógild ef ekki er farið eftir þeim reglum og því einstaklingi sem vill gera erfðaskrá ráðlagt að leita til sérfræðings við gerð hennar.  Hægt er að breyta erfðaskrá eða auka við hana en við breytinguna verður að fylgja sömu reglum. Ef fleiri en ein erfðaskrá er til staðar og allar teljast gildar samkvæmt lögum er það sú yngsta sem fara skal eftir, ef þær stangast á.

Bréfarfur

Öllum er heimilt að kveða á um erfðarétt í erfðaskrá og kallast slíkt bréferfð.

Erfðaskrá getur tekið til allra eigna einstaklings ef hvorki er um eftirlifandi maka í hjúskap eða börn að ræða.

Sé um maka eða börn að ræða er réttur einstaklings takmarkaður við rétt til að ráðstafa eignum sínum í erfðaskrá sem nemur 1/3  af heildareignunum.

Fyrirframgreiddur arfur

Fyrirframgreiddur arfur er arfur sem einstaklingur á lífi greiðir erfingja sínum. Ganga þarf frá honum eftir atvikum með erfðaskrá, en ávallt með erfðafjárskýrslu og greiðslu erfðafjárskatts.  Erfðafjárskattur er 10% af því sem greitt er sem fyrirframgreiddur arfur.

Sé sýslumanni ekki gerð grein fyrir fyrirframgreiddum arfi er um gjöf að ræða til viðkomandi aðila sem skattlögð yrði með tekjuskatti sem er töluvert hærri en erfðafjárskattur,  sbr. 1. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003  – https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003090.html#G71M2

Ákvarðanir um kvaðaarf

Öllum er heimilt að kveða á um erfðarétt í erfðaskrá og kallast slíkt bréferfð.

Erfðaskrá getur tekið til allra eigna einstaklings ef hvorki er um eftirlifandi maka í hjúskap eða börn að ræða.

Sé um maka eða börn að ræða er réttur einstaklings takmarkaður við rétt til að ráðstafa eignum sínum í erfðaskrá sem nemur 1/3  af heildareignunum.

Erfðafjárskattur

Erfðafjárskattur er 10%. Skatturinn er lagður á þegar búið er að samþykkja erfðafjárskýrslu af hálfu viðkomandi sýslumanns. Gjalddagi erfðafjárskatts er 10 dögum eftir að skýrslan hefur verið samþykkt.

Á grundvelli erfðafjárskýrslunnar er erfðafjárskattur lagður á og er hann 10%. Enginn skattur greiðist þó af fyrstu 6.203.409 kr. (miðað við 2024) af skattstofni. Það merkir það að ef erfingjarnir eru þrír, þá greiðir hver og einn ekki erfðafjárskatt af fyrstu 2.067.803 kr. (6.203.409 kr. /3) heldur reiknast erfðafjárskatturinn af kr. 3.000.000 – kr. 2.067.803.

Eftirlifandi maka ber ekki að greiða erfðafjárskatt.  Sama gildir um sambúðarmaka sem tekur arf eftir hinn látna samkvæmt erfðaskrá.

Eignir sem hafa verið á nafni hins látna er hægt að færa yfir á erfingja, þegar erfðafjárskattur hefur verið greiddur.

Eftir andlát

Við andlát tekur dánarbú við skyldum og réttindum hins látna. Dánarbú er sérstakur lögaðili og skal fara eftir ákveðnum reglum við uppgjör þess.

Við andlát er það skylda erfingja að ganga í að skipta eignum hins látna. Sýslumanni skal tilkynnt með formlegum hætti með hvaða hætti skiptin fara fram eigi síðar en innan fjögurra mánaða frá andláti.

Skipti dánarbús geta farið fram með eftirfarandi hætti:

  1. Eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi.
  2. Einkaskipti á dánarbúinu fara fram.
  3. Eignir duga aðeins fyrir útfararkostnaði og búið þar með lýst eignalaust.
  4. Opinber skipti á dánarbúinu fara fram.

Á meðan ráðstöfun á eignum dánarbús hafa ekki farið fram eru eignir hins látna í raun frystar. Aðeins sýslumaður fer með ráðstöfunarrétt yfir eignunum, þ.m.t. innstæðum á bankareikningum hins látna.

Hver er munurinn á séreign og hjúskapareign þegar kemur til uppgjörs dánarbús?

Munurinn fellst í því að þegar um hjúskapareign er að ræða, þá á hvor maki um sig 50% hlut í viðkomandi eign. Þannig að við uppgjör dánarbús skammlífara maka, þá er aðeins 50% viðkomandi eignar hluti af uppgjöri dánarbúsins því eftirlifandi maki á 50% hlut í viðkomandi eign. Eftirlifandi maki erfir því 1/3 af 50% hlut og á því í raun 67% af heildareigninni.

Ef um séreign skammlífari maka er hins vegar að ræða, þá á eftirlifandi maki ekki 50% hlut í eigninni. Eignin í heild sinni er því undir skiptum og eftirlifandi maki erfir 1/3 af 100% hlut viðkomandi eignar og börnin 2/3 af 100% hlut viðkomandi eignar.

Seta í óskiptu búi

Seta í óskiptu búi – sameiginleg börn

Hafi hinn látni verið í hjúskap við andlát getur eftirlifandi maki óskað eftir því að sitja í óskiptu búi.

Sambúðarmaki á ekki rétt til setu í óskiptu búi samkvæmt lögum og getur ekki fengið því framgengt með erfðaskrá. Slíkur réttur, seta í óskiptu búi er aðeins til þeirra sem hafa gengið í hjónaband. Hafi hjón aðeins átt sameiginleg börn er réttur hins langlífari maka skilyrðislaus. Sé skiptum dánarbús lokið með því að eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi, fer eftirlifandi maki einn með ráðstöfunarrétt yfir búinu.

Til að ganga frá setu í hinu óskipta búi þarf aðeins að fylla út eyðublað og skila til sýslumanns. Eyðublaðið má finna á neðangreindri vefslóð:

https://island.is/seta-i-oskiptu-bui

Sýslumaður staðfestir leyfið og gefur út leyfisbréf sem eftirlifandi maki getur svo sýnt hjá bankastofnunum og sýslumanni til að færa eignir sem voru skráðar á hinn skammlífari maka yfir á hinn langlífari.

Það athugast að maka er heimilt að kveða svo á um í erfðaskrá að hinn langlífari skuli ekki eiga rétt til setu í óskiptu búi, sbr. 7. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html og ber þá að synja um rétt til setu í óskiptu búi. Frumrit erfðaskrár verður að vera fyrir hendi.

Seta í óskiptu búi  – eitt barn eða fleiri ekki sameiginleg

Hafi hinn látni átt barn/börn sem ekki eru börn langlífari maka, er rétturinn til setu í óskiptu búi háður samþykki þeirra barna sem eru ekki sameiginleg.

Hjón geta þó komið í veg fyrir að leita þurfi samþykkis þess barns/þeirra barna sem ekki eru sameiginleg með því að gera erfðaskrá. Í erfðaskránni væri þá kveðið á um rétt langlífari makans til setu í óskiptu búi og þarf þá að framvísa frumriti erfðaskrárinnar þegar skammlífari maki er fallinn frá.

Sé erfðaskrá ekki til að dreifa á þó langlífari maki rétt til setu í óskiptu búi ef hann fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpbarna eða niðja sinna, ella þarf hann samþykki forsjárforeldris eða lögráðamanns barnanna.

Hvað merkir það að sitja í óskiptu búi?

Að sitja í óskiptu búi merkir að eignum og skuldum hins látna verður ekki skipt milli erfingja að svo stöddu. Eftirlifandi maki tekur við eignunum og  heldur áfram að halda utan um eignirnar, eins og staðan væri óbreytt. Sama gildir um skuldirnar. Hinn eftirlifandi maki hefur þannig einn ráðstöfunarrétt yfir öllum eignunum og geta eignir búsins hvort sem er rýrnað eða aukist á meðan seta í óskiptu búi varir. Hinn eftirlifandi maki ber þannig jafnframt ábyrgð á öllum skuldum dánarbúsins.

Börn hins látna eiga ekki tilkall til ákveðinna eigna og/eða fjármuna við andlát hins langlífari maka. Börnin eiga einungis tilkall til ákveðins hlutfalls, miðað við arfshlutdeild, af heildareignum dánarbúsins, þegar dánarbú hins skammlífara er gert upp við andlát hins langlífara maka.

Ef eftirlifandi maki situr í óskiptu búi, hvenær verður dánarbú hins skammlífara gert upp?

Hinn langlífari maki má sitja í óskiptu búi til dánardags og þá fyrst verður dánarbú hins skammlífara gert upp við andlát hins langlífara. Hinn langlífari maki verður að gæta þess þegar hann situr í óskiptu búi að fara eðlilega með fjármuni og eignir dánarbúsins, því skv. 17. gr. erfðalaga https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html er hægt að krefjast þess að búi verði skipt ef um óhæfilega fjárstjórn maka er að ræða. Dómafordæmi hafa sýnt að mikið þarf til að koma til að maki verði sviptur réttinum til að sitja í óskiptu búi.

Langlífari maka er ekki skylt að sitja í óskiptu búi til dánardags. Langlífara maka er ávallt heimilt að gera upp hið óskipta bú, hvort sem er við eitt barn eða fleiri. Algengt er að langlífari maki geri upp við börn hins skammlífari maka, en sitji áfram í óskiptu búi gagnvart sameiginlegum börnum sínum.

Heimild til setu í óskiptu búi fellur þó niður ef hinn langlífari maki ákveður að ganga í hjónaband að nýju og ber þá að gera upp arf eftir hinn skammlífari til allra barna hins skammlífara, þ.m.t. sameiginleg börn skammlífari og eftirlifandi maka.

Hafi langlífari maki setið í óskiptu búi með ófjárráða stjúpniðjum, getur þó stjúpniðji krafist skipta innan 3 mánaða frá því að hann öðlaðist fjárræði. Hafi hann ekki gert það innan þess tímaramma, þá getur hann þó gert það síðar með ársfyrirvara, sbr. 14. gr. erfðalaga https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html

Ef ákveðin eign var séreign hins skammlífara samkvæmt kaupmála, fer séreignin þá inn í hið óskipta bú?

Séreign fellur ekki undir hið óskipta bú nema sérstaklega hafi verið kveðið svo á um í kaupmálanum að við andlát þess sem á séreignina skuli fara með eignina sem hjúskapareign, sbr. 11. gr. erfðalaga https://www.althingi.is/lagas/153b/1962008.html.

Hafi svo ekki verið kveðið á um í kaupmála, ber að skipta séreigninni á milli erfingja á þann hátt að maki erfir 1/3 og börn hins látna skipta með sér 2/3 í samræmi við fjölda þeirra.

Einkaskipti

Með einkaskiptum er átt við það að börn, og eftir atvikum maki, og aðrir erfingjar samkvæmt erfðaskrá ef við á, óska eftir því við viðkomandi sýslumann að þeir ætli sjálfir að bera ábyrgð á skiptum á dánarbúinu og beri þannig ábyrgð á öllum skuldbindingum þess. Erfingjar bera þar með alla ábyrgð á skuldum hins látna, jafnt þeim skuldum sem kunnugt er um og þeim sem ekki eru þekktar við andlát viðkomandi.

Erfingjar sjá sjálfir um skiptingu eigna búsins og gera upp skuldir þess. Erfingjar geta því selt eignir þess, til dæmis fasteignir og tekið út af bankareikningum hins látna, enda miðast uppgjör erfðafjárskatts við stöðu eigna á dánardegi. Erfingjarnir eiga að gera þetta í sameiningu og vera sammála um hvaða eignir komi í hlut hvers og eins erfingja.

Hægt er að veita þriðja aðila umboð til að halda utan um skiptin fyrir hönd erfingjanna.

Til að ljúka skiptum formlega þarf að upplýsa um uppgjör á dánarbúinu með því að skila erfðafjárskýrslu til viðkomandi sýslumanns og greiða erfðafjárskatt. Ef erfingjar eru ekki allir að fá jafnt og sömu eignirnar, t.d. einn erfingi fær fasteign í sinni hlut en aðrir erfingjar meiri pening í staðinn, þarf að útbúa sérstaka skýrslu, svokallaða einkaskiptagerð, sem gerir grein fyrir þessu og þurfa allir erfingjar að undirrita hana. Ef eignir eru óverulegar, þá getur viðkomandi sýslumaður ákveðið að ekki sé nauðsynlegt að gera einkaskiptagerð ef nægar upplýsingar koma fram í erfðafjárskýrslu.

Ekkert eyðublað er fyrir einkaskiptagerð, en sýslumaður hefur gefið út staðlað form erfðafjárskýrslunnar, sjá hér https://www.skatturinn.is/media/rsk01/rsk_0112.is.pdf

Eftirlifandi maka ber ekki að greiða erfðafjárskatt.  Sama gildir um sambúðarmaka sem tekur arf eftir hinn látna samkvæmt erfðaskrá.  Eignir sem hafa verið á nafni hins látna er hægt að færa yfir á erfingja, þegar erfðafjárskattur hefur verið greiddur. Gjalddagi erfðafjárskatts er 10 dögum eftir að skýrslan hefur verið samþykkt, en eindagi er 30 dögum síðar, sbr. 14. gr. laga um erfðafjárskatt.

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2004014.html

Erfingjar fá eitt ár til að ljúka skiptum dánarbús frá því að leyfi til einkaskipta er gefið út.

Þessi leið er háð samþykki allra erfingja, ella verður að fara í opinber skipti.

Opinber skipti

Erfingjar geta krafist opinberra skipta á dánarbúi vilji þeir ekki gangast undir það að bera ábyrgð á öllum skuldbindingum búsins. Erfingjar geta líka farið þessa leið ef ágreiningur er á milli erfingja og líklegt þykir að erfitt verði að komast að samkomulagi um skipti búsins. Sýslumaður getur að auki krafist opinberra skipta hafi erfingjar ekki brugðist við áskorun sýslumanns um að hefjast handa við skipti. Hver erfingi fyrir sig á rétt á því að krefjast þess að opinber skipti fari fram og nægir að einn þeirra fari fram á það.

Til að krefjast opinberra skipta skal senda beiðni til þess héraðsdómstóls þar sem hinn látni átti síðast lögheimili. Beiðnin er svo tekin fyrir í sérstöku réttarhaldi og í framhaldinu kveðinn upp úrskurður og dánarbúinu skipaður sérstakur skiptastjóri. Skiptastjóri ber ábyrgð á að framkvæma skiptin og er kostnaður af störfum hans greiddur af eignum dánarbúsins. Skiptastjóri hefur skiptin á að boða erfingja á sinn fund.

Ef erfingjar lýsa því yfir að þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum búsins gefur skiptastjóri út innköllun sem birt er tvisvar sinnum í Lögbirtingablaði. Í innköllun er skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan 2 mánaða frá því að innköllunin birtist í fyrra skiptið.

Þegar skiptastjóri hefur lokið við að greiða allar kröfur á hendur dánarbúi eða tekið frá fjármuni til þess að mæta þeim getur hann lokið opinberum skiptum með úthlutun til erfingja. Sé ágreiningur fyrir hendi getur skiptastjóri þurft að vísa ágreiningi erfingja til héraðsdóms til úrlausnar.

Þá þarf að hafa í huga að hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús við opinber skipti og í ljós kemur eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir þess nægja ekki fyrir skuldum, þá verður úthlutað úr dánarbúinu upp í kröfur eins og um þrotabú væri að ræða.

Eignalaust bú

Hægt er að lýsa því yfir gagnvart sýslumanni að hinn látni hafi ekki átt neina fjármuni eða aðrar eignir umfram kostnað við útför og er þá hægt að ljúka skiptum strax á þeim grundvelli að búið sé eignalaust.

Útfararkostnaður

Við andlát fellur til kostnaður við útför hins látna. Heimilt er draga þann kostnað frá þeim eignum sem koma til arfsúthlutunar. Því er mikilvægt að halda utan um kvittanir vegna alls útlagðs kostnaðar við útför hins látna.

Sýslumaður hefur gefið út staðlað form sem hægt er að fylla inn í upplýsingar um útfararkostnað sem fylgir þá með erfðafjárskýrslunni, sbr.

https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/3ZzuHpeXpAHOASDAUPBSrG/146e4c4a52c31e63e152145438a755e6/Yfirlit_um_kostna___vi_____tf__r_-___tfyllanlegt.pdf

Aðeins er heimilt að tilgreina kostnað vegna þess einstaklings sem útförin á við um, þ.e. kostnaður vegna skammlífari maka kemur ekki til frádráttar nema um ógreidda kröfu sé að ræða. Þannig að sé óskipt bú gert upp þegar hinn langlífari maki er enn á lífi, eða við andlát hins langlífari maka er ekki hægt að draga frá kostnað vegna útfarar hins skammlífari maka.

Skuldir dánarbús

Til lækkunar á eignum sem tilheyra viðkomandi dánarbúi eru skuldir hins látna á dánardegi. Skuldir sem falla til eftir dánardag koma ekki til lækkunar á arfi.

Skattskylda dánarbús

Þar sem við andlát einstaklings stofnast sérstök lögpersóna, dánarbú, þá ber það sjálfstæða skattskyldu og fer álagning á dánarbú eftir þeim álagningarreglum sem gilda um lögaðila. Dánarbú sætir samkvæmt núgildandi skattalögum 37,6%  skattlagningu, sbr. 2. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003  – https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003090.html#G71M2

Skattskyldu dánarbús lýkur við skiptalok hjá sýslumanni svo sem með leyfi til setu í óskiptu búi eða þegar erfðafjárskýrsla hefur verið samþykkt af hálfu sýslumanns.

LOCAL lögmenn er kraftmikil og metnaðarfull lögmannsstofa þar sem áhersla er lögð á samvinnu, bæði innan stofunnar og við viðskiptavini. Við leysum málið með þér og þínum til að létta á ykkar vangaveltum og ef til vill áhyggjum hvað varðar erfðamál og tengd réttindi.

LOCAL lögmenn bjóða þér að senda okkur tölvupóst á local@locallogmenn.is um það sem þér og þínum liggur á hjarta og við svörum þér eins fljótt og kostur er.

Hér getur þú farið yfir á vefsíðu LOCAL lögmanna og kynnt þér aðra þjónustu í boði.

Starfsfólk

Auður Ýr Helgadóttir

Lögmaður
audur@locallogmenn.is

Áslaug Gunnlaugsdóttir

Lögmaður
aslaug@locallogmenn.is

Guðrún Bergsteinsdóttir

Lögmaður
gudrun@locallogmenn.is

Gunnlaugur Garðarsson

Lögmaður
gunnlaugur@locallogmenn.is